Afgreiðsla deiliskipulagstillögunnar Undirhlíð-Miðholt

Uppfært 2. júlí 2008, eftir bæjarstjórnarfund. 

Jæja, þá er meirihluti skipulagsnefndar búinn að leggja blessun sína yfir deiliskipulagstillöguna og bæjarstjórnarmeirihlutinn búinn að samþykkja afgreiðsluna.

Í skipulagsnefnd eru: Jón Ingi Cæsarsson (S) formaður, Ólafur Jónsson (D), Hanna Dögg Maronsdóttir (D), Haraldur Sveinbjörn Helgason (L), Jóhannes Árnason (V). Jóhannes lét bóka að hann greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Atkvæðagreiðslan í bæjarstjórn fór þannig:

Samþykkir voru: Kristján Þór Júlíusson (D), Sigrún Björk Jakobsdóttir (D), Hermann Jón Tómasson (S), Helena Þ. Karlsdóttir (S), Jóhannes Bjarnason (B), Þórarinn B. Jónsson (D), María H. Marinósdóttir (D).

Sigrún Stefánsdóttir (S) sat hjá.

Nei, sögðu: Baldvin Sigurðsson (V),  Dýrleif Skjóldal Ingimarsdóttir (V) og Oddur Helgi Halldórsson (L)

Samþykkt meirihlutans á deiliskipulagstillögunni var lokahnykkurinn í þeim einbeitta ásetningi núverandi meirihluta skipulagsnefndar og bæjarstjórnarmeirihlutans að keyra með öllum tiltækum ráðum í gegn ósk verktakans SS byggir að fá að byggja tvö háhýsi á Undirhlíðarreitnum.

Allar tilraunir íbúa til að hafa áhrif á þessa ákvarðanatöku, tilraunir sem staðið hafa í næstum heilt ár, hafa reynst gjörsamlega árangurslausar. Ekkert tillit var tekið til athugasemda yfir 400 íbúa við auglýsta deiliskipulagstillögu, né heldur mótmæla og athugasemda hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis sem fram komu bæði á vinnslustigi tillögunnar og eftir að tillagan var auglýst.

Eitt er það orð sem oft er notað í máli manna um skipulagsmál hér á Akureyri. Þetta er hugtakið verktakalýðræði. Undirhlíðarmálið er rakið dæmi um slíka tegund af lýðræði:

Fyrir tveimur árum sendi verktakinn SS byggir arkítektinn sinn inn í bæjarkerfið með teikningar að tveimur háhýsum með 60 íbúðum, staðsettum við Undirhlíð. Hugmyndirnar og teikningar voru lagðar fram á fundi umhverfisráðs (forvera skipulagsnefndar) 8. mars 2006, í tíð meirihluta D og B. Til að háhýsahugmyndin gæti gengið upp þurfti að „lagfæra“ aðalskipulagið sem þá var í lokavinnslu eftir athugasemdaferli. „Lagfæringin“ fólst í stækkun þéttingarreitsins þannig að hann næði að Undirhlíð og auka þurfti þéttleika byggðarinnar úr 5 einbýlishúsum í u.þ.b. 60 íbúðir. Þessi "lagfæring" var gerð án nokkurs samráðs við hverfisnefnd eða íbúa. Verktakinn tók svo til við að útfæra háhýsahugmyndina nánar og nú tveimur árum síðar hefur hann fengið allt sem hann bað um en óskir fleiri hundruð íbúa um aðra húsagerð sem félli betur að umhverfi reitsins voru hunsaðar með öllu.   

Fyrir þá sem hafa áhuga á að sjá athugasemdina í 11 liðum sem gerð var við deiliskipulagstillöguna, undirrituð af 249 einstaklingum þá fylgir hún í viðhengi með þessari færslu.

Svör við athugasemdum, m.a. þessum 11 liðum má sjá hér 

Niðurstaða: Íbúalýðræðið á Akureyri er sýndarlýðræði. Verktakalýðræðið sem einkenndi vinnubrögð fyrri meirihluta (D og B) er enn við lýði þó að seinni lista-bókstafurinn hafi breyst úr B í S.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband