23.4.2008 | 09:49
Akstursíþrótta- og skotsvæði á Glerárdal
Samtökin Öll lífsins gæði? eru grasrótarsamtök og hafa þann tilgang að gera íbúalýðræðið á Akureyri virkara en verið hefur. Samtökin snúast því ekki eingöngu um baráttu gegn háhýsabyggingum við Undirhlíð heldur viljum við að samtökin geti orðið vettvangur fyrir öll málefni sem snúa að skipulagi Akureyrarbæjar og þarfnast ígrundunar og umræðu.
Við okkur hefur haft samband formaður Hestamannafélagsins Léttis, Ásta M. Ásmundsdóttir og vakið athygli á því að í dag, 23. apríl kl. 16:00 rennur út frestur til að gera athugasemd við deiliskipulag fyrir akstursíþrótta- og skotsvæði á Glerárdal.
Þótt stuttur tími sé til stefnu hvetjum við ykkur sem þetta lesið og búið á Akureyri að kynna ykkur gögnin á heimasíðu Akureyrarbæjar, tillögur í kynningu og senda inn athugasemd ef þið sjáið vankanta á þessu deiliskipulagi.
Hér fyrir neðan er texti bréfsins sem Ásta sendi okkur og gaf hún leyfi fyrir birtingu hans orðrétt. Ef þið viljið fá frekari upplýsingar hjá henni er netfangið hennar asta@matis.is
Sæl
Mig langar að vekja athygli ykkar á tillögu að deiliskipulagi í Glerárdal sem gerir ráð fyrir allsherjar akstursgerði sem samanstendur af æfingarbrautum fyrir unglinga og hinn almenna bæjarbúa, kennslubrautum fyrir ökukennara, æfingarbrautum fyrir lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir. Ennfremur keppnis- og æfingasvæði í akstursíþróttum sem samanstendur af spyrnubraut, Go-Kart braut, rally-krossbraut auk þess torfærukeppnissvæði..
Ofar er áætlað að koma fyrir mótorkross brautum KKA, þar fyrir ofan er skotsvæði Skotfélagsins.
Tillagan er í auglýsingu núna og er frestur til þess að skila inn athugasemdum til kl. 16.00 á morgun [í dag] 23. apríl. Verið er að skipuleggja mjög hávaðasama og mengandi starfsemi við útivistarsvæði Glerárdals og liggur svæðið að verndarsvæði Glerár. Hávaði (áætlaður) mun víða fara yfir þau mörk sem reglugerð leyfir um útivistarsvæði. Önnur mengun frá svæðinu s.s. olíu- og rykmengun hefur ekki verið metin.
Hestamenn sem eru með mikla starfsemi og fjárfestingar á svæðinu hafa barist gegn þessum hugmyndum lengi. Allar upplýsingar um skipulagi er að finna á heimasíðu Akureyrarbæjar en ég sendi hér umsögn Umhverfisstofnunar og fleiri aðila sem segja í stuttu máli mikið um hversu óvarlega er farið í þessari tillögugerð og hvaða hagsmunir verða fyrir borð bornir.
kveðja
Ásta M. Ásmundsdóttir formaður hestamannafélagsins Léttis
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:59 | Facebook