Akureyri: Öll lífsins gæði?

Nei, ekki í skipulagsmálum - segjum við sem stöndum að samtökunum sem halda úti þessari bloggsíðu. Við ætlum að nota þennan vettvang til að koma þeim sjónarmiðum okkar á framfæri og berjast fyrir úrbótum í þeim efnum.

Verkefni okkar næstu vikurnar verður að reyna að koma í veg fyrir skipulagsslys á Undirhlíðarreitnum svokallaða.

Þennan reit hefur byggingaverktaki í bænum deiliskipulagt í samstarfi við arkítektinn sinn og lagði hann tillöguna síðastliðið haust fyrir skipulagsyfirvöld. Tillagan snýst um að byggja tvær 7 hæða blokkir með samtals 70 íbúðum á þessum reit. Þessu höfum við, íbúar í nágrenninu mótmælt með margvíslegum hætti ásamt því að leggja fram hugmyndir að annars konar nýtingu svæðisins sem við teljum samræmast að öllu leyti betur markmiðum aðalskipulags sem og tryggja að lífsgæði íbúa í nágrenninu skerðist ekki. Til að nefna dæmi um aðgerðir hefur hverfisnefnd Holta- og Hlíðahverfis mótmælt í umsögn til skipulagsdeildar, við höfum mótmælt á kynningarfundi um málið, í tölvupóstum til bæjarfulltrúa, sent inn tillögur okkar til skipulagsdeildar, flutt mál okkar í viðtalstíma hjá bæjarstýru og fulltrúa VG og skrifað grein um málið í Mogga (greinin birtist 5. mars og er hægt lesa hér neðar í færslunni, þar má lesa af hvaða ástæðum við teljum þessar háhýsabyggingar skipulagsslys).

En allt hefur komið fyrir ekki. Það sést á fundargerð skipulagsnefndar frá 12. mars sl. og bæjarstjórnar þann 18. mars. Þar kemur fram að deiliskipulagstillagan hefur verið samþykkt og verður lögð fram til kynningar á næstunni.

Myndir af Undirhlíðarreitnum þar sem reisa á háhýsin má sjá hér:

Undirhlíðarreitur - norður

Undirhlíðarreitur - norðvestur

Undirhlíðarreitur - norðaustur

Tveir aðstandendur samtakanna Öll lífsins gæði? skrifuðu grein í Morgunblaðið þann 5. mars sl. og röktu þar stöðuna sem og forsögu málsins. Hér er greinin:

Akureyri: Öll lífsins gæði? 
Tilgangur þessarar greinar er að kalla eftir svörum um stefnu bæjaryfirvalda á Akureyri í skipulagsmálum sem lúta að þéttingu byggðar. Spurt er hvort bæjaryfirvöld ætli að viðhafa þau vinnubrögð að gera deiliskipulagstillögu hagsmunaaðla í byggingariðnaði að sinni, eins og nú lítur út fyrir að verði gert, og þar með þétta byggð á Akureyri með háhýsum hvernig svo sem þau falla að aðliggjandi byggð og án tillits til framkominna óska íbúa sem telja lífsgæði sín skert með slíkum byggingum? Er þetta íbúalýðræðið í framkvæmd á Akureyri?

Ýmsar deilur hafa sprottið í bænum vegna háhýsabygginga. Minna má í því sambandi á deilur vegna háhýsa við Baldurshaga, við Mýrarveg og í Síðuhverfi. Nú virðist svonefndur Undirhlíðarreitur, þ.e. reitur sem markast af Miðholti, Krossanesbraut, Undirhlíð og Langholti, vera næsti háhýsareitur á dagskrá bæjaryfirvalda.

Forsaga málsins er að síðla sumars 2007 lagði byggingaverktaki á Akureyri, í samstarfi við arkítekt, fram drög að deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir að tvö 7 hæða háhýsi með 70 íbúðum rísi við Undirhlíð. Ekið væri frá Undirhlíð inn í bílageymslu milli húsanna. Hugmyndirnar voru kynntar íbúum á fundi hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis 22. ágúst sl. Í framhaldinu sendi hverfisnefnd umsögn til skipulagsdeildar Akureyrarbæjar. Í henni kom eftirfarandi fram:


„Hverfisnefnd Holta- og Hlíðahverfis telur að tillögur SS-Byggis að deiliskipulagi Undirhlíðar-Langholts reits sem kynntar voru fyrir hverfisnefndinni taki ekkert tillit til heildaryfirbragðs Holtahverfis. Byggingarnar séu í engu samræmi við aðliggjandi byggð hvað varðar hæð og umfang. Hverfisnefndin telur að ofangreind tillaga að deiliskipulagi sé ekki í samræmi við markmið í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018, kafla 2.2.4. um bæjarmynd þar sem segir að nýbyggingar í eldri hverfum skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er. ... Hverfisnefnd Holta- og Hlíðahverfis telur sjálfsagt að byggt verði á Undirhlíðar-Langholts reit eins og gert er ráð fyrir í Aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018. Við gerð deiliskipulags svæðisins þarf að gera kröfur til skipulagshöfundar um að taka mið af þeim byggingum sem fyrir eru í Holtahverfi.“

Til viðbótar má geta þess að fram kemur í umsögn hverfisnefndar að ellefu af fjórtán manns sem tjáðu sig á kynningarfundi um tillögur byggingaverktakans lýstu sig andsnúna þeim. Samhliða umsögninni sendu nokkrir íbúar í næsta nágrenni tölvupóst til allra bæjarfulltrúa með hugmyndum að uppbyggingu svæðisins. Þær voru eftirfarandi:


„Tillaga 1: Á reitnum verði byggð að hámarki sex tveggja hæða hús við Miðholt. Miðja svæðisins yrði fyllt upp og útbúið útivistarsvæði fyrir fjölskyldur með malbikuðum göngustígum, sem væru með akrein fyrir hjólreiðamenn. Undirgöng væru undir Krossanesbraut og göngu/hjólastígur þar í gegn sem tengdist niður í „Bótina“. Áfram yrði mikið af gróðri á svæðinu, runnar meðfram göngu/hjólastígum og mikið af trjám. Í miðju svæðisins yrði blómatorg með bekkjum (samanber við Eiðsvöll).


Tillaga 2: Á reitnum verði útbúinn fjölskyldugarður með bekkjum, göngustígum, blómabeðum, tjörn og leiktækjum. Engar byggingar yrðu leyfðar á þessu græna svæði. Miðja svæðisins yrði fyllt upp og útbúið útivistarsvæði fyrir fjölskyldur með malbikuðum göngustígum, sem væru með akrein fyrir hjólreiðamenn. Undirgöng væru undir Krossanesbraut og göngu/hjólastígur þar í gegn sem tengdist niður í „Bótina“. Áfram yrði mikið af gróðri á svæðinu, runnar meðfram göngu/hjólastígum og mikið af trjám. Í miðju svæðisins yrði blómatorg með bekkjum.“


Þann 14. febrúar sl. gekk sami hópur á fund bæjarfulltrúa og kallaði eftir svörum um stöðu mála. Svarið sem fékkst frá bæjarstjóra var að meirihlutinn hefði núþegar ákveðið að vinna eftir deiliskipulagstillögu byggingaverktakans sem gerir ráð fyrir háhýsunum tveimur.


Við hljótum að spyrja okkur af hverju haldið er áfram að vinna eftir tillögu sem bæði er í ósamræmi við markmið í Aðalskipulagi Akureyrar og gengur gegn umsögn hverfisnefndar?
Að okkar mati er það ekkert annað en skipulagsslys að byggja háhýsi á Undirhlíðarreitnum. Í því sambandi nefnum við nokkur atriði:

  • Háhýsi í byggð þar sem fyrir eru 1-2 hæða hús samræmast ekki markmiðum í núverandi Aðalskipulagi Akureyrar þar sem segir að nýbyggingar í eldri hverfum skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er.
  • Háhýsin byrgja útsýni og varpa skugga á nærliggjandi hús og skerða þar með lífsgæði íbúa í næsta nágrenni.
  • Gríðarleg umferðaraukning verður um svæðið með tilkomu háhýsa. Henni fylgir aukin loft- og hávaðamengun sem er ærin fyrir.
  • Stórhýsin takmarka mjög möguleika til uppbyggingar útivistarsvæðis á reitnum. - Um mikið mýrarsvæði er að ræða á þessum reit. Slíkar stórframkvæmdir og þurrkun þeim samfara geta valdið sigskemmdum á húseignum íbúanna í kring.


Við skorum á bæjaryfirvöld að kalla eftir nýrri deiliskipulagstillögu fyrir Undirhlíðarreitinn, tillögu þar sem umhverfissjónarmið eru í heiðri höfð og tekið er um leið tillit til hagsmuna þeirra sem búa í næsta nágrenni.

Þannig hljóðaði greinin. Nú vitum við afgreiðsluna. Á okkur var ekki hlustað.

Við veltum fyrir okkur hvernig bæjaryfirvöld skilja hugtakið „íbúalýðræði“. Eru athugasemdir eftir að búið er að samþykkja skipulagsslysin eina færa leiðin til að mótmæla þeim? Og hverju hafa þær skilað? Var hætt við byggingu Baldurshagablokkanna þegar athugasemdir bárust? Nei verktakinn fékk að byggja tvö sjö hæða hús í staðinn fyrir eitt hærra. Teikningarnar að Undirhlíðarblokkunum eru að okkur sýnist sömu og Baldurhagablokkirnar. Fyrir utan hæðina er umfang hvorrar þeirrar um sig er ekkert smáræði. Og hvernig fór með viðbyggingu Íþróttahallarinnar? Var hætt við hana þrátt fyrir undirskriftir yfir tvö þúsund íbúa? Nei, það er verið að byggja hana. Og hvað með málin þar sem íbúar hafa þurft að ráða lögfræðinga til að verja rétt sinn gagnvart skipulagsyfirvöldum síðustu mánuðina eða árið? Það er nokkuð dýr lausn að bjóða hinum almenna íbúa upp á að okkar mati.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Til hamingju með þessa síðu og flott hjá ykkur að reyna að berjast fyrir þessu máli. Baráttan um grafirnar hefur staðið lengi og ég man að ég var bara unglingur þegar fyrst var farið að tala um að byggja þarna. Þá voru grafirnar aljgörlega ósnertur reitur þar sem við krakkarnir lékum okkur. Þar var meira að segja vísir að fótboltavelli á þá daga. Ég hef alltaf séð fyrir mér að þetta svæði eigi að vera grænt svæði. En einhverra hluta vegna eiga Íslendingar ákaflega erfitt með að átta sig á því hversu mikilvægt það er að skilja eftir nokkur græn svæði innan um alla steypuna. Og háhýsi þarna!!! Þetta er brjálæði.

Annars sýnist mér bæjarskipulag á Akureyri almennt vera í molum. Lítið á nýjasta iðnaðarhverfið í Krossaneshaganum. Eitt besta byggingarhverfi bæjarins og þarna hefði fólk verið tilbúið til þess að borga góðan pening fyrir útsýni yfir pollinn. En nei, í staðinn var þetta gert að iðnaðarhverfi. Ég held að mamma gráti í hvert sinn sem hún keyrir þarna fram hjá - sem er nokkurn veginn á hverjum degi því þau búa enn í Þverholtinu.

Og lítið bara á söguna. Afi átti jörð þar sem nú er Þverholt. Þegar Akureyri ákvað að gleypa Glerárþorp þá voru þeir svo rausnarlegir að leyfa honum að halda tveim lóðum, einni hvorum megin við húsið sitt. Og svo var honum skipað að taka sínar kindur og sætta sig við það að hann fékk ekki lengur að vera með skepnur þarna. Ekki veit ég til þess að hann hafi fengið nokkra borgun. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 20.3.2008 kl. 17:31

2 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Sæl Kristín og takk fyrir.  Rétt hjá þér, skipulagsmál eru í molum hjá Akureyrabæ og hafa verið lengi. Dæmið sem þú nefnir af Krossaneshaganum er skelfilegt rugl, agalegar blokkirnar sem troðið var niður við Glerártorg eru annað dæmi um skipulagsslys og það á ekki að gefa eftir. Arkitekt sem ók með vini mínum að sunnan til Akureyrar fyrir ekki löngu, bað hann um að hleypa sér út við Byko og gefa sér smá tíma til að skoða  framkvæmdir við Krossaneshagann. Þegar hann kom til baka efir að hafa gengið um svæðið þá lagði hann til að leitað yrði læknisaðstoðar fyrir þá sem réðu skipulagsmálum á Akureyri.  En málið er einfalt í sinni fáránlegu mynd. Í skipulagsmálum virðast bæjaryfirvöld gera lítið annað en samþykkja tillögur verktaka og arkitekta sem ráða ferðinni og ferlið er þekkt. Fundurinn sem ég sat uppí Glerárskóla þegar forkynning á tillögum um nýtt deiliskipulag átti sér stað,  náði einna hæst þegar arkitektinn og forstjóri fyrirtækisins töluðu um allt gamla fólkið sem vildi ekki flytja úr hverfinu sínu og þyrfti blokkir. Fleiri smellin útspil hafa þessir gaurar í vopnabúrinu eins og að forselja í eitthvað sem ekki er búið að afgreiða. Nær allir sem sátu fundinn í Glerárskóla voru á einu máli. Engar blokkir á svæðið og að staðið væri við upphaflegt deiliskipulag. Síðan þá höfum við lagt fram tillögur að grænu fallegu útivistarsvæði í tengslum við þá byggð sem var í upphaflega deiliskipulaginu, með gönguleiðum undir Krossanes niður að höfn, hverfisnefnd hefur mótmælt, við höfum setið fundi með bæjarstýru þar sem við komum mótmælum til skila en áfram skal valtað.  Við munum að sjálfsögðu berjast gegn þessari fáránlegu framkvæmd og munum láta reyna á stöðu okkar sem íbúa Akureyrarbæjar.

Pálmi Gunnarsson, 20.3.2008 kl. 18:32

3 Smámynd: Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir

Það þarf nú ekki annað en að fara uppí naustahverfi til að sjá stórkostlegt skipulagsklúður, maður spyr sig, hvaða tangarhald hafa verktakar á bæjarapparatinu??

Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 20.3.2008 kl. 22:09

4 identicon

Þarfar ábendingar um skipulagsmál í athugasemdunum sem hér eru komnar. Ég verð nú bara sorgmædd þegar ég horfi á þetta fallega byggingarland ofan við Krossanes yfirfyllast af forljótum iðnaðarskemmum. Hverjum datt eiginlega í hug að spandera þessu stórkostlega byggingarlandi undir iðnaðarstarfsemi??? Ég er ekkert hissa á því að arkítektinn skyldi hafa mælt með meðferð fyrir þá sem þannig stóðu að verki. Naustahverfið er svo sannarlega meira og minna algjört klúður. Sumt þar uppfrá minnir mig mest á byggingar í Fellahverfinu í Breiðholti sem voru "inn" fyrir einhverjum tugum ára en enginn myndi einu sinni láta sér  detta í hug að teikna í dag. Það er verið að rífa sambærilegar byggingar í A-Evrópu í dag vegna þess að enginn vill búa þar. En þær eru víst mjög hagkvæmar byggingar ... fyrir byggingarverktaka.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 22:57

5 Smámynd: Huld S. Ringsted

Ég er svo sammála ykkur Kristín og Anna með krossanessvæðið. Ég verð eiginlega alltaf jafnreið þegar ég keyri þar framhjá og horfi á allt iðnaðarhúsnæðið á þessu flotta byggingarlandi og fyrir utan ljótleikann sem blasir við fólki þegar það keyrir inn í bæinn!! Naustahverfið er sú mesta óreiða sem ég hef komið inn í, það virðist ekkert skipulag vera á götunum, húsin hvert öðru ljótara og öllu hrúgað saman. Íbúar Akureyrar þurfa svo sannarlega að fara láta heyra hátt í sér varðandi þessi mál hérna. Það verður hörmulegt umhverfisslys ef að þessar tvær blokkir verða byggðar í Undirhlíðarreitnum, miklu nær að reisa lágreistari hús ef að ekki má vera þarna grænt svæði.

Huld S. Ringsted, 20.3.2008 kl. 23:12

6 Smámynd: Eva Benjamínsdóttir

Ég get augljóslega séð  fyrir mér umhvefis og skipulagsslys. Þessar út úr kú blokkir, þarna (sjá myndir) fyrir framan hólfegu lágreistu húsin á græna blettinum. Fyrr má nú vera yfirgangurinn, frekjan og græðgin.

Akureyringar sláið nú í borðið og mótmælið kröftuglega svo undir taki í Kerlingu. Baráttukveðjur til ykkar allra sem vekið athygli  á þessum ófögnuði.  Og stjórnvöld, OPNIÐ ÞIÐ AUGUN! 

Eva Benjamínsdóttir, 21.3.2008 kl. 00:44

7 identicon

Styð ykkur heils hugar í þessum mótmælum, held að það þyrfti virkilega fara endurnýja mannskapinn sem sér um skipulagsmál hérna í bænum.

Stöndum saman og fyrirbyggjum fleiri skipulagsslys í bænum og eitt vitum við að það gerist ekki með þögninni, verðum að láta í okkur heyra og berjast. 

Alma (IP-tala skráð) 21.3.2008 kl. 14:06

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband