25.3.2008 | 16:42
Ákvarðanir um Undirhlíðarreitinn keyrðar með hraði gegnum kerfið
Áður en við skoðum spurninguna um hraða ákvarðana í bæjarkerfinu á Akureyri vegna Undirhlíðarreitsins er athyglisvert að velta fyrir sér afgreiðslu skipulagsnefndar bæjarins í máli sem sneri að hæð fjölbýlishúss í Naustahverfi.
Í upphafi árs 2007 kom fram ósk um breytingu á húseigninni Stekkjatúni 32-34 þar sem óskað var eftir að fjölbýlishúsið væri hækkað um 2 hæðir, þ.e. úr þremur í fimm hæðir.
Hverfisnefnd Naustahverfis sem og íbúar í nágrenninu mótmæltu og sendu inn athugasemdir við þessa ósk.
Skv. fundargerð á vef Akureyrarbæjar fékk málið eftirfarandi afgreiðslu hjá skipulagsnefnd þann 14. mars 2007:
Skipulagsnefnd tekur undir rök þau er sett hafa verið fram í innsendum athugasemdum er varða anda og upplegg gildandi deiliskipulags. Hér er um að ræða hús sem er hluti af ramma hverfisins og upplegg skipulags gerir ráð fyrir að þau hús séu þriggja hæða auk bílgeymsluhæðar. Sú tillaga sem fram er sett gengur verulega gegn þeirri hugsun og breytir ásýnd og anda þessa hverfis. Auk þess hefði slík breyting fordæmisgildi er varðar önnur hús sömu gerðar. Skipulagsnefnd hafnar því umbeðinni breytingu á deiliskipulagi.
Takið eftir: Sú tillaga sem fram er sett gengur verulega gegn þeirri hugsun og breytir ásýnd og anda þessa hverfis.
Þegar þessi röksemdafærsla skipulagsnefndar er skoðuð verður það að teljast undarleg afgreiðsla hjá sömu skipulagsnefnd að veita brautargengi deiliskipulagstillögu sem gerir ráð fyrir 7 hæða háhýsum í hverfi þar sem fyrir eru 1-2 hæða hús.
--------
En skoðum nú Undirhlíðarmálið og afgreiðslu þess í kerfinu undanfarnar vikur:
Þann 27. febrúar sl. var eftirfarandi skráð í fundargerð skipulagsnefndar um deiliskipulagstillöguna sem við, aðstandendur þessar síðu, viljum koma í veg fyrir að gangi eftir:
2. Undirhlíð - Miðholt. Deiliskipulag.
SN060010
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagi á reit er markast af Undirhlíð, Langholti, Miðholti og Krossanesbraut. Meðfylgjandi eru nánari skýringar og teikningar dags. 18.02.2008 unnar af Loga Má Einarssyni, f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519.
Skv. sömu fundargerð var afgreiðslu málsins frestað, en upplýsingarnar í fundargerðinni um meðfylgjandi skýringar og teikningar vöktu athygli okkar. Einn fulltrúi okkar, sem stöndum að þessum samtökum, sendi bréf og óskaði eftir að við fengjum að sjá þessi meðfylgjandi gögn. Við fengum synjun á beiðnina frá skipulagsstjóra þann 5. mars s.l. með eftirfarandi rökum:
... þar sem Skipulagsnefnd hefur verið að óska eftir viðbótargögnum og upplýsingum um ýmislegt þessu máli tengdu er ekki tímabært að senda þau gögn að sinni til þín. Að öllum líkindum verða gögnin send hverfisnefndinni til kynningar þegar þau liggja endanlega fyrir. Þau gögn sem þú ert að vísa til eru í raun lítið annað en það sem áður hefur verið kynnt en betrumbætt þannig að hagsmunir íbúa í hverfinu verði tryggðir ef ákveðið verði að fara í einhverjar framkvæmdir á svæðinu. Minni á að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að auglýsa tillöguna af bæjarstjórn og því langt ferli eftir.
Það var sem sagt ekki tímabært að við fengjum gögnin m.a. vegna þess að það var svo langt í afgreiðslu málsins hjá bæjarstjórn.
Langa ferlið var eftirfarandi: Skipulagsnefnd samþykkti 12. mars, þ.e. viku seinna, að leggja til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði auglýst og bæjarstjórn samþykkti þá tillögu á næsta bæjarstjórnarfundi á eftir, þ.e. 18. mars.
Það verður að segjast eins og er að afgreiðsla eins og þessi sem og fyrri reynsla af ferli ákvarðana í umdeildum skipulagsmálum hér á Akureyri vekja óneitanlega spurningar um hverra hagsmunir það eru sem mestu ráða þegar kemur að ákvörðunum um skipulag byggingarmála í bæjarfélaginu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:12 | Facebook
Athugasemdir
Akkúrat svona er bæjarstjórnin hér á Selfossi að nauðga okkur íbúunum með miðbæjarskipulaginu sem enginn vill, allavega mjög fáir og þetta er kallað íbúalýðræði. Veit ekki hvern andsk. á að gera við svona misvitra ráðamenn.
Ásdís Sigurðardóttir, 25.3.2008 kl. 20:00
Ég var að lesa færslu á bloggi Egils Helgasonar þar sem hann segir frá og setur inn myndir af menningarmiðstöð í Valencia á Spáni. Fyrir utan glæsilega byggingu og áhugaverðar myndir var þar athugasemd sem vakti sérstaka athygli mína. Hún hljóðar svo:
"Flestar íslenskar byggingar eru byggðar undir stjórn verktaka sem vilja umfram allt halda kostnaði niðri. Það er fegurðarskyn verkfræðinganna sem hefur ráðið mestu um byggingastíl á Íslandi.
Það var tvennt sem kom eiginkonu minni, arkitektinum mest á óvar þega hún fór að vinna á Íslandi. Fyrst áhrifa og valdaleysi arkitekta yfir flestum verkefnum sem þeir vinna að. Þau eru kommisjónuð af verktökum sem hafna öllu sem mögulega gæti aukið kostnað. í öðru lagi sú súrrealíska staða sem hún lenti stundum í, að fara á byggingarstað og teikna það sem verktakinn hafði þegar byggt til að skila inn teikningum og fá þær samþykktar af yfirvöldum."
Athyglisvert, ekki satt...?
Lára Hanna Einarsdóttir, 26.3.2008 kl. 11:24
Gangi ykkur vel í þessum baráttum. Allt sem þið gerið er þess virði.
Það þarf líka að koma til hugarfarsbreyting hjá verktökunum. Þeir eru að byggja sama gamla aftur og aftur... af því þeir hafa lært það einhvern tímann og kunna bara það. Auðvitað er það rörsýn þeirra, sem þarf að útvíkka með góðu eða illu.
Ólafur Þórðarson, 26.3.2008 kl. 14:41