Mótmælum háhýsabyggð á Undirhlíðarreitnum!

 

Íbúar á Akureyri: Stöndum saman vörð um bæinn okkar. Segjum stopp við frekari skipulagsslysum á Akureyri!

Háhýsin sem byggingaverktakinn SS-byggir vill reisa á Undirhlíðarreitnum eru tröllvaxin skrímsli sem ekkert hafa að gera í Holtahverfið. Þau stríða gegn samþykktu aðalskipulagi sem segir að nýbyggingar í eldri hverfum skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er. 

En skipulag Holtahverfis er ekki bara mál þeirra sem þar búa heldur allra Akureyringa. Þess vegna hvetjum við alla Akureyringa til að og koma til liðs við okkur og mótmæla því að gengið sé gegn markmiðum aðalskipulags með þessum hætti, þ.e. mótmæla háhýsabyggð á Undirhlíðarreitnum!

Þið sem viljið skrifa nafn ykkar á mótmælaskjal: Hafið samband við okkur í tölvupósti á akureyri.olg@gmail.com  

blokkir2-3d  Undirhlíðarreitur - norður

Stærsti byggingarverktakinn á Akureyri vill háhýsavæða bæinn!

Í viðtali við N4 fyrir ekki löngu síðan kom fram að verktakinn sem lagði fram deiliskipulagstillöguna fyrir Undirhlíð-Miðholt og innihélt byggingu á tveimur stykkjum af þessum 7 hæða háhýsum (sjá mynd) vill byggja miklu meira upp í loft á Akureyri, hann vill sem sagt háhýsavæða Akureyri! Ef fram heldur sem horfir, þ.e.a.s. ef umræddur verktaki heldur áfram að hafa þau ítök sem hann virðist hafa haft til þessa þegar kemur að pólitíkinni í bænum þá er háhýsabyggð sú framtíð sem bíður þeirra sem búa á Akureyri og heimsækja bæinn og þar verður ekki spurt um hvers konar byggð er í kring. Það verður bara byggt! Og rökin? Jú, það vantar land! Eða: það vantar íbúðir fyrir þennan markhópinn eða hinn!

Við sem stöndum að samtökunum Öll lífsins gæði? viljum ekki treysta byggingaverktökum fyrir skipulagsmálum á Akureyri: Okkar skilaboð til bæjarfulltrúa eru eftirfarandi:

Nú er mál að linni: Það er umhverfismálayfirvalda, skipulagsyfirvalda bæjarins og kjörinna bæjarfulltrúa í samvinnu við íbúa að skipuleggja óbyggða reiti í Akureyrarbæ.

Og þar á að hugsa í heildum, EKKI einstökum reitum. Það á ekki að eftirláta verktökum að setja niður hvað sem er, hvar sem þeim sýnist. Það á að vera hverjum manni ljóst að það eru gróðasjónarmið verktakanna sjálfra og ekkert annað sem ræður umfangi og hæð bygginganna sem þeir vilja byggja. Hvor Baldurshagablokk er með 20 íbúðum (upplýsingar úr gögnum á heimasíðu Akureyrarbæjar), í hvorri þessara fyrirhuguðu tröllvöxnu bygginga á íbúðafjöldinn að verða 32. Ímyndið ykkur umfangið miðað við sama hæðafjölda!

blokkir1-3d

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks á Akureyri. Ykkar flokkar hafa verið við völd síðustu kjörtímabilin.

Við spyrjum:

Viljið þið hafa á ykkur þann stimpil að ákvarðanir ykkar í skipulagsmálum séu mótaðar af hagsmunatengslum við þá sem vilja byggja? Það er um þetta sem íbúar bæjarfélagsins ræða þegar minnst er á ákvarðanir í málum eins og Sundlaugarmálinu, Baldurshagamálinu, Sómatúnsmálinu og svona mætti áfram telja. Margir íbúar tala um ítök byggingaverktaka og kosningasjóði flokkanna í sömu andrá, margir íbúar segja að það þýði ekkert að tala við ykkur, þið hlustið ekki á raddir þeirra íbúa sem eiga andstæðra hagsmuna að gæta, hvernig sem þeir mótmæli sé það þeirra hlutskipti að lifa með vondum ákvörðunum í skipulagsmálum um ókomin ár. Er það þetta sem nú á að bjóða okkur, íbúum í Holtahverfi, upp á? 

Hugsið málið upp á nýtt! 

Það er ekki of seint fyrir ykkur að sjá að ykkur í þessu máli!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband