Segjum nei við háhýsum við Undirhlíð

Magnús Skúlason arkítekt sagði í Speglinum á RÚV nú fyrir stuttu:

„[Með] þéttingu byggðar sem við fundum upp  á á árunum milli ‘78 og ‘82 áttum við nú við lága þétta byggð yfirleitt inn á milli þess sem búið var að byggja en ekki að verið væri að troða á nágrannanum með of háum húsum eins og verið er að gera í dag – þétting byggðar hefur farið algjörlega út í öfgar, hún virðist stefna öll upp í loftið til að fá sem mesta nýtingu út úr reitunum ... Þetta er orðið nokkurs konar skammaryrði „þétting byggðar“.

Áttu lögheimili á Akureyri og ert mótfallin/n þéttingu byggðar með háhýsum innan um lágreistar byggingar í grónum hverfum? Þá hvetjum við þig til að lesa og skrifa undir athugasemdina/áskorunina sem finna má á slóðinni

http://www.petitiononline.com/undirhl/petition.html

 Leiðbeiningar:

1)smella á "click here til sign petition"
2) fylla út reitina:
Name
e-mail (private er sjálfvalið og merkir að netfang kemur hvergi fram)
Kennitala
Póstnúmer
3) smella á "preview signature"
4) smella á "approve signature"


Undirskriftalisti: Háhýsi við Undirhlíð - Nei takk!

 

Heildarásýnd Akureyrarbæjar varðar alla bæjarbúa. Þess vegna er deiliskipulagstillaga fyrir Undirhlíðarreitinn þar sem gert er ráð fyrir tveimur 7 hæða háhýsum mál allra Akureyringa. 

Áttu lögheimili á Akureyri og ert mótfallin/n þéttingu byggðar með háhýsum innan um lágreistar byggingar í grónum hverfum? Þá hvetjum við þig til að lesa og skrifa undir athugasemdina/áskorunina sem finna má á slóðinni

http://www.petitiononline.com/undirhl/petition.html

 Leiðbeiningar:

1)smella á "click here til sign petition"
2) fylla út reitina:
Name
e-mail (private er sjálfvalið og merkir að netfang kemur hvergi fram)
Kennitala
Póstnúmer
3) smella á "preview signature"
4) smella á "approve signature"

Veitum bæjaryfirvöldum aðhald! Íbúalýðræðið á að vera virkt alla daga ársins, ekki bara einn!


Stöndum vörð um heildarásýnd Akureyrarbæjar!

Íbúar á Akureyri: Stöndum saman vörð um bæinn okkar og mótmælum háhýsabyggingum á Undirhlíðarreitnum!

Við sem stöndum að samtökunum Öll lífsins gæði?  hvetjum alla Akureyringa sem láta sér annt um heildarásýnd Akureyrarbæjar að kynna sér deiliskipulagstillöguna og taka virkan þátt í umræðu um hana. Við trúum því að flestir séu okkur sammála um að háhýsi eigi ekki að vera allsherjar lausnarorð þegar kemur að þéttingu byggðar. Háhýsi mitt inni í lágreistri byggð eins og um ræðir í Holtahverfinu geta ekki með nokkru móti samræmst markmiðum aðalskipulags sem segir um hönnun nýbygginga: Byggingin sé í góðu samræmi við  nánasta manngert og náttúrlegt umhverfi, verndi landslagið og taki tillit til þess og falli vel inn í umhverfi og götumynd“.  

Við hvetjum ykkur til að nota lýðræðislegan rétt ykkar og senda inn athugasemdir við deiliskipulagstillöguna Undirhlíð-Miðholt. Fylgist með síðunni okkar. Við munum halda upp virkri baráttu, safna undirskriftum og aðstoða fólk við að gera athugasemdir ef þess er óskað. 

Sendið okkur tölvupóst ef þið viljið fá aðstoð eða koma einhverju á framfæri sem innleggi í bráttuna: akureyri.olg@gmail.com 


Allir að ræða skipulagsmál og alls staðar sama sagan ...

... það er á brattan að sækja fyrir almenning þegar hann reynir að verja sig gegn illa ígrunduðum ákvörðunum yfirvalda í skipulagsmálum sem oftar en ekki virðast setja hagsmuni annarra en íbúanna sjálfra í fyrsta sæti.

Þetta er eitt af því sem Lára Hanna Einarsdóttir, þýðandi og leiðsögumaður sem heldur úti bloggsíðu á blog.is bendir á. Hún er hafsjór af fróðleik um skipulagsmál og umhverfismál almennt. Pistlarnir hennar eru í senn fræðandi og beittir. Okkur langar að benda lesendum síðunnar okkar á þennan pistil frá Láru Hönnu. Þó að hann beinist sumpart að borgarmálefnum þá má heimfæra margt í honum upp á þann raunveruleika sem við búum við í skipulagsmálum á Akureyri.


Mótmælum háhýsabyggð á Undirhlíðarreitnum!

 

Íbúar á Akureyri: Stöndum saman vörð um bæinn okkar. Segjum stopp við frekari skipulagsslysum á Akureyri!

Háhýsin sem byggingaverktakinn SS-byggir vill reisa á Undirhlíðarreitnum eru tröllvaxin skrímsli sem ekkert hafa að gera í Holtahverfið. Þau stríða gegn samþykktu aðalskipulagi sem segir að nýbyggingar í eldri hverfum skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er. 

En skipulag Holtahverfis er ekki bara mál þeirra sem þar búa heldur allra Akureyringa. Þess vegna hvetjum við alla Akureyringa til að og koma til liðs við okkur og mótmæla því að gengið sé gegn markmiðum aðalskipulags með þessum hætti, þ.e. mótmæla háhýsabyggð á Undirhlíðarreitnum!

Þið sem viljið skrifa nafn ykkar á mótmælaskjal: Hafið samband við okkur í tölvupósti á akureyri.olg@gmail.com  

blokkir2-3d  Undirhlíðarreitur - norður

Stærsti byggingarverktakinn á Akureyri vill háhýsavæða bæinn!

Í viðtali við N4 fyrir ekki löngu síðan kom fram að verktakinn sem lagði fram deiliskipulagstillöguna fyrir Undirhlíð-Miðholt og innihélt byggingu á tveimur stykkjum af þessum 7 hæða háhýsum (sjá mynd) vill byggja miklu meira upp í loft á Akureyri, hann vill sem sagt háhýsavæða Akureyri! Ef fram heldur sem horfir, þ.e.a.s. ef umræddur verktaki heldur áfram að hafa þau ítök sem hann virðist hafa haft til þessa þegar kemur að pólitíkinni í bænum þá er háhýsabyggð sú framtíð sem bíður þeirra sem búa á Akureyri og heimsækja bæinn og þar verður ekki spurt um hvers konar byggð er í kring. Það verður bara byggt! Og rökin? Jú, það vantar land! Eða: það vantar íbúðir fyrir þennan markhópinn eða hinn!

Við sem stöndum að samtökunum Öll lífsins gæði? viljum ekki treysta byggingaverktökum fyrir skipulagsmálum á Akureyri: Okkar skilaboð til bæjarfulltrúa eru eftirfarandi:

Nú er mál að linni: Það er umhverfismálayfirvalda, skipulagsyfirvalda bæjarins og kjörinna bæjarfulltrúa í samvinnu við íbúa að skipuleggja óbyggða reiti í Akureyrarbæ.

Og þar á að hugsa í heildum, EKKI einstökum reitum. Það á ekki að eftirláta verktökum að setja niður hvað sem er, hvar sem þeim sýnist. Það á að vera hverjum manni ljóst að það eru gróðasjónarmið verktakanna sjálfra og ekkert annað sem ræður umfangi og hæð bygginganna sem þeir vilja byggja. Hvor Baldurshagablokk er með 20 íbúðum (upplýsingar úr gögnum á heimasíðu Akureyrarbæjar), í hvorri þessara fyrirhuguðu tröllvöxnu bygginga á íbúðafjöldinn að verða 32. Ímyndið ykkur umfangið miðað við sama hæðafjölda!

blokkir1-3d

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks á Akureyri. Ykkar flokkar hafa verið við völd síðustu kjörtímabilin.

Við spyrjum:

Viljið þið hafa á ykkur þann stimpil að ákvarðanir ykkar í skipulagsmálum séu mótaðar af hagsmunatengslum við þá sem vilja byggja? Það er um þetta sem íbúar bæjarfélagsins ræða þegar minnst er á ákvarðanir í málum eins og Sundlaugarmálinu, Baldurshagamálinu, Sómatúnsmálinu og svona mætti áfram telja. Margir íbúar tala um ítök byggingaverktaka og kosningasjóði flokkanna í sömu andrá, margir íbúar segja að það þýði ekkert að tala við ykkur, þið hlustið ekki á raddir þeirra íbúa sem eiga andstæðra hagsmuna að gæta, hvernig sem þeir mótmæli sé það þeirra hlutskipti að lifa með vondum ákvörðunum í skipulagsmálum um ókomin ár. Er það þetta sem nú á að bjóða okkur, íbúum í Holtahverfi, upp á? 

Hugsið málið upp á nýtt! 

Það er ekki of seint fyrir ykkur að sjá að ykkur í þessu máli!


Fræðandi og áhugavert innlegg í umræðu um skipulagsmál

Fyrr í vetur tók Egill Helgason viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðing. Viðtalið er aðgengilegt á YouTube, í tveimur hlutum. Viðtalið er hvort tveggja í senn afskaplega fræðandi og áhugavert. Eiginlega ætti þetta viðtal að vera skylduáhorf fyrir alla sem hafa ákvörðunarvald í skipulagsmálum borga og bæja. 

Við hvetjum þá sem þetta lesa að horfa á viðtalið, virða fyrir sér myndirnar af austur-evrópsku blokkunum og blokkunum á höfuðborgarsvæðinu sem Sigmundur sýnir og fjallar um í viðtalinu og virða svo fyrir sér þrívíðu skyssurnar af fyririhuguðum blokkarbyggingum á Undirhlíðarreitnum sem við höfum sett inn hér að neðan.

Er það svona sem við viljum þétta byggð á Akureyri? Eru tröllvaxnar blokkarbyggingar, 22 metra háar í það minnsta (og fyrirferðarmiklar í meira lagi á þverveginn) leiðin til að þétta byggð í Holtahverfi, grónu hverfi sem samanstendur af einnar til tveggja hæða húsum?

Við segjum: Nei!

Hluti 1

Hluti 2

Hér fyrir neðan eru þrívíðar skyssur af fyrirhugaðri blokkarbyggingu við Undirhlíð. Tvær slíkar eiga að byggjast þarna hlið við hlið með bílastæði á milli. Því miður fylgdu engar þrívíddarteikningar deiliskipulagstillögunni en við fengum myndir frá skipulagsstjóra (sem þessar eru klipptar út úr) með þeim orðum að þrívíðar myndir sem sýndu betur afstöðu gagnvart byggðinni í kring væru í vinnslu og yrðu aðgengilegar þegar þær væru tilbúnar. Við munum sýna þær hér á síðunni þegar þær verða aðgengilegar.

blokkir1-3d

blokkir2-3d

Hér fyrir neðan eru blokkarteikningarnar úr lofti séð eins og þær eru birtar á forsíðu greinargerðarinnar sem fylgir deiliskipulagstillögunni:

loftmynd2


Hvað gengur bæjarfulltrúum Akureyrarbæjar til?

 

„Fólk kallar eftir því að byggðin sé þétt en helst ekki nálægt því sjálfu!“

Þessi orð viðhafði Sigrún Björk Jakobsdóttir á fundi í bæjarstjórn Akureyrar þann 18. mars s.l. Fleiri komment í svipuðum dúr voru látin falla á fundinum af þeim fulltrúum sem samþykktu að setja deiliskipulagstillögu um Undirhlíðarreitinn í auglýsingu. 

Er það vísvitandi gert að láta að því liggja að við, íbúar í nágrenninu, sem höfum mótmælt, viljum ekki láta byggja á reitnum? Ef svo er: Hver er tilgangurinn með slíkum málflutningi?

Við spyrjum vegna þess að viðkomandi bæjarfulltrúar vita betur, þeir hafa fengið margvísleg gögn þar sem fram kemur að málflutningur okkar íbúanna snýst um hæð bygginganna, umfang þeirra og fjölda íbúða.

Í mótmælum okkar til bæjaryfirvalda höfum við sett fram þau rök að hæð fyrirhugaðra fjölbýlishúsa á Undirhlíðarreitnum stríði gegn markmiðum aðalskipulags, þ.e. það skemmi heildarmynd svæðisins að reisa 7 hæða háhýsi á reitnum í þeirri lágreistu byggð sem þarna er fyrir. Þegar hæð húsa er mæld er miðað við að hver hæð sé ca. 3 metrar. Hæð 1-2 hæða húsa myndi þá reiknast ca 3-6 metrar en fjölbýlishúsin verða í það minnsta 22 metra há skv. deiliskipulagstillögunni!!!

Við höfum einnig vakið athygli á hættu á skemmdum á húseignum okkar vegna áhrifa slíkra stórframkvæmda á jarðvatn/grunnvatn sem og bent á verulega aukið umferðarálag vegna þess hversu margar íbúðir er um að ræða. 

Í öllum samskiptum sem við höfum átt við bæjarkerfið hefur komið skýrt fram að við höfum aldrei mótmælt því að byggt verði á Undirhlíðarreitnum. Bæjarstýran hefur meira að segja staðfest þann málfultning okkar sjálf. Það gerði hún í bréfi til þeirra sem höfðu mætt þann 14. febrúar í viðtalstíma til hennar og fulltrúa VG. Bréfið sem dagsett er 28. febrúar hafði að geyma greinargerð hennar um það sem fram hafði komið á þessum fundi. Í bréfinu stendur orðrétt:

„Hópurinn mótmælti hæð húsanna, en var jákvæður gagnvart lægri íbúðabyggð og þéttingu byggðar á reitnum ... Bæjarráð dags. 29. febrúar 2008 vísar málinu til skipulagsdeildar.“

Hér sést svart á hvítu að skilaboðin sem bæjarkerfið hefur fengið frá okkur voru og eru skýr.

Við erum ekki mótfallin þéttingu byggðar í nágrenni við okkur svo fremi sem sú byggð fellur að heildarmynd hverfisins og veldur ekki sigskemmdum á húseignum í nágrenninu. 7 hæða háhýsi í byggð þar sem fyrir eru 1-2 hæða hús er að okkar mati skipulagsslys. Það er lýðræðislegur réttur okkar að óska eftir að fá að hafa áhrif á það hvernig bærinn okkar er skipulagður. 

Guðríður Edda Ragnarsdóttir skrifaði athyglisverða grein í Mogga þann 28. febrúar um skipulagsmál í höfuðborginni. Þar stendur á einum stað:

greinarhluti

Það má spyrja sig hvort það sem hér stendur eigi ekki líka við um bæjaryfirvöld á Akureyri, hvort þau þurfi ekki aukið aðhald þannig að komið verði í veg fyrir að byggingaverktaki fái að byggja aðrar tvær „Baldurshagablokkir“ og nú á reit þar sem fyrir eru eingöngu lágreist hús upp á eina til tvær hæðir?


Ákvarðanir um Undirhlíðarreitinn keyrðar með hraði gegnum kerfið

Áður en við skoðum spurninguna um hraða ákvarðana í bæjarkerfinu á Akureyri vegna Undirhlíðarreitsins er athyglisvert að velta fyrir sér afgreiðslu skipulagsnefndar bæjarins í máli sem sneri að hæð fjölbýlishúss í Naustahverfi.

Í upphafi árs 2007 kom fram ósk um breytingu á húseigninni Stekkjatúni 32-34 þar sem óskað var eftir að fjölbýlishúsið væri hækkað um 2 hæðir, þ.e. úr þremur í fimm hæðir.

Hverfisnefnd Naustahverfis sem og íbúar í nágrenninu mótmæltu og sendu inn athugasemdir við þessa ósk.

Skv. fundargerð á vef Akureyrarbæjar fékk málið eftirfarandi afgreiðslu hjá skipulagsnefnd þann 14. mars 2007:

Skipulagsnefnd tekur undir rök þau er sett hafa verið fram í innsendum athugasemdum er varða anda og upplegg gildandi deiliskipulags. Hér er um að ræða hús sem er hluti af ramma hverfisins og upplegg skipulags gerir ráð fyrir að þau hús séu þriggja hæða auk bílgeymsluhæðar. Sú tillaga sem fram er sett gengur verulega gegn þeirri hugsun og breytir ásýnd og anda þessa hverfis. Auk þess hefði slík breyting fordæmisgildi er varðar önnur hús sömu gerðar. Skipulagsnefnd hafnar því umbeðinni breytingu á deiliskipulagi.

Takið eftir: „Sú tillaga sem fram er sett gengur verulega gegn þeirri hugsun og breytir ásýnd og anda þessa hverfis“.  

Þegar þessi röksemdafærsla skipulagsnefndar er skoðuð verður það að teljast undarleg afgreiðsla hjá sömu skipulagsnefnd að veita brautargengi deiliskipulagstillögu sem gerir ráð fyrir 7 hæða háhýsum í hverfi þar sem fyrir eru 1-2 hæða hús.

--------

En skoðum nú Undirhlíðarmálið og afgreiðslu þess í kerfinu undanfarnar vikur:

Þann 27. febrúar sl. var eftirfarandi skráð í fundargerð skipulagsnefndar um deiliskipulagstillöguna sem við, aðstandendur þessar síðu, viljum koma í veg fyrir að gangi eftir:

2. Undirhlíð - Miðholt. Deiliskipulag.
SN060010
Skipulagsstjóri lagði fram tillögu að deiliskipulagi á reit er markast af Undirhlíð, Langholti, Miðholti og Krossanesbraut. Meðfylgjandi eru nánari skýringar og teikningar dags. 18.02.2008 unnar af Loga Má Einarssyni, f.h. SS Byggis ehf., kt. 620687-2519. 

Skv. sömu fundargerð var afgreiðslu málsins frestað, en upplýsingarnar í fundargerðinni um „meðfylgjandi skýringar og teikningar“ vöktu athygli okkar. Einn fulltrúi okkar, sem stöndum að þessum samtökum, sendi bréf og óskaði eftir að við fengjum að sjá þessi meðfylgjandi gögn. Við fengum synjun á beiðnina frá skipulagsstjóra þann 5. mars s.l. með eftirfarandi rökum:

... þar sem Skipulagsnefnd hefur verið að óska eftir viðbótargögnum og upplýsingum um ýmislegt þessu máli tengdu er ekki tímabært að senda þau gögn að sinni til þín. Að öllum líkindum verða gögnin send hverfisnefndinni til kynningar þegar þau liggja endanlega fyrir. Þau gögn sem þú ert að vísa til eru í raun lítið annað en það sem áður hefur verið kynnt en betrumbætt þannig að hagsmunir íbúa í hverfinu verði tryggðir ef ákveðið verði að fara í einhverjar framkvæmdir á svæðinu. Minni á að ekki hefur verið tekin ákvörðun um að auglýsa tillöguna af bæjarstjórn og því langt ferli eftir. 

Það var sem sagt ekki tímabært að við fengjum gögnin m.a. vegna þess að það var svo langt í afgreiðslu málsins hjá bæjarstjórn.

„Langa ferlið“ var eftirfarandi: Skipulagsnefnd samþykkti 12. mars, þ.e. viku seinna, að leggja til við bæjarstjórn að deiliskipulagstillagan yrði auglýst og bæjarstjórn samþykkti þá tillögu á næsta bæjarstjórnarfundi á eftir, þ.e. 18. mars.

Það verður að segjast eins og er að afgreiðsla eins og þessi sem og fyrri reynsla af ferli ákvarðana í umdeildum skipulagsmálum hér á Akureyri vekja óneitanlega spurningar um hverra hagsmunir það eru sem mestu ráða þegar kemur að ákvörðunum um skipulag byggingarmála í bæjarfélaginu.


Háhýsaþróunin á Akureyri er tímaskekkja

Undanfarna mánuði hefur umræða um háhýsi verið talsvert áberandi og hefur þar ýmislegt áhugavert komið fram. Í umræðunni hefur m.a. verið bent á að bygging háhýsa hafi byrjað með módernismanum kringum 1930 og almennt sé verið að hverfa frá þessum byggingarstíl í Evrópu. Bent hefur verið á margvíslegar neikvæðar afleiðingar slíkrar byggðar, t.d þær að háhýsi krefjist mikils rýmis fyrir bíla og kalli með því yfir íbúa á þeim svæðum þar sem þau eru staðsett bæði mikið álag af völdum umferðar og loftmengun. Annað sem varað hefur verið við eru veðurfarsleg áhrif, þ.e. hættan af því að háhýsabyggingar magni upp vinda í nágrenninu.

Arkítektinn Guja Dögg Hauksdóttir lýsir þessu vel í viðtali sem birtist við hana í 24 stundum 19. febrúar s.l. Hennar niðurstaða er sú að slíkar háhýsabyggingar séu ekki hagkvæmur kostur að velja fyrir þá sem hafa það verkefni að skipuleggja byggð.

Bæjaryfirvöld: Að þétta byggð með háhýsum eins og stendur til að gera á Undirhlíðarreitnum er ekki bara skipulagsslys í þeirri merkingu að þau skemma heildarsvip hverfisins heldur eru þessi tvö háhýsi með tilheyrandi bílageymslu líka tímaskekkja!

Hér er viðtalið við Guju í 24 stundum sem vísað er í hér að ofan:

hahysi-24st-190208


Þegar fram kemur verktaki sem vill byggja!

Þau eru athyglisverð rökin sem bæjarstýra Akureyrar setur fram í Mogganum 20. mars sl. fyrir því að samþykkja að setja í auglýsingu deiliskipulagstillögu frá SS-byggir sem vill reisa tvö sjö hæða háhýsi með samtals 70 íbúðum til að þétta byggð þar sem fyrir eru 1-2 hæða hús. 

Vitnað er í hana í fréttinni þar sem hún segir: „Þegar fram kemur verktaki sem vill byggja og segir að það sé hægt - og að íbúðirnar séu mjög eftirsóttar - er sjálfsagt að skoða það“  

Við spyrjum: Eru þetta rök? Á byggingaverktaki að fá að byggja hvað sem er algjörlega óháð heildarmynd hverfisins, bara af því að hann vill byggja á þessu svæði? Við spyrjum líka um framboð og eftirspurn: Hvaða byggingaverktaki reynir ekki að sýna fram á eftirspurn eftir byggingunum þegar tilvist fyrirtækisins veltur á því að hann geti haldið áfram að byggja og selja? Á hverju byggist rekstur byggingaverktaka svona almennt séð ef ekki því að byggja sem mest og selja sem mest?

Eru skilaboðin til okkar sem verðum þolendur þessa gjörnings þau að í hugum fulltrúa D, S og B sem samþykktu deiliskipulagstillögu verktakans vegi rök verktakans þyngra heldur en rök hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis og okkar íbúanna, til að mynda þau rök okkar að:

  • Háhýsi í byggð þar sem fyrir eru 1-2 hæða hús samræmast ekki markmiðum í núverandi Aðalskipulagi Akureyrar þar sem segir að nýbyggingar í eldri hverfum skuli falla vel inn í þá götumynd/bæjarmynd sem fyrir er.
  • Háhýsin byrgja útsýni og varpa skugga á nærliggjandi hús og skerða þar með lífsgæði íbúa í næsta nágrenni.
  • Gríðarleg umferðaraukning verður um svæðið með tilkomu háhýsa. Henni fylgir aukin loft- og hávaðamengun sem er ærin fyrir.
  • Stórhýsin takmarka mjög möguleika til uppbyggingar útivistarsvæðis á reitnum.
  • Um mikið mýrarsvæði er að ræða á þessum reit. Slíkar stórframkvæmdir og þurrkun þeim samfara geta valdið sigskemmdum á húseignum íbúanna í kring.

Fréttin í Mogga 20. mars

Moggi200308


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband